Fara í efni

Útgáfupartý Blokkarbarns

Ásta, ein af áhugaverðustu röddum íslenskrar tónlistar, fagnar útgáfu nýju breiðskífunnar Blokkarbarn föstudaginn 5. september kl. 20:00 með útgáfupartýi á Norðurpólnum.
Platan er unnin í samstarfi við upptökustjórann Árna Hjörvar og byggir á sérstökum hljóðheimi þar sem víólan fær að njóta sín á óvæntan hátt. Hún á rætur að rekja í kasettuupptökur frá árinu 1997 þegar Ásta, þá eins og hálfs árs, söng og spjallaði við föður sinn. Í gegnum þessar upptökur og nýjar tónsmíðar glímir hún við tilfinninguna að snúa aftur heim eftir langan tíma, horfast í augu við breytingar og endurskilgreina hvað „heima“ þýðir.

  • Lifandi tónlist – Ásta spilar ný lög af plötunni
  • Takmörkuð útgáfa – aðeins 100 handnúmeruð vínyleintök
  • Brakandi ferskur Blokkarbarns-varningur til sölu
  • Drykkir frá Steindal í boði á staðnum

Um Ástu
Ásta er klassískt menntuð víóluleikari frá Royal Danish Academy of Music og hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hefur einnig vakið athygli sem söngvaskáld með einstaka rödd og hjartnæmar, persónulegar lagasmíðar. Fyrsta plata hennar Sykurbað (2019) var valin plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og hlaut jafnframt tilnefningar fyrir lag ársins og söngkonu ársins. Með Blokkarbarni stígur Ásta fram með enn djarfara og persónulegra verk.